Lilju þarf að kveða.

Greinar

Allir vildu Lilju kveðið hafa, var sagt um frægan ljóðabálk á miðöldum. Hið sama gerist nú, nokkur hundruð árum eftir að Eysteinn Ásgrímsson orti sína Lilju. Nú vilja margir kveðið hafa þá leiftursókn, sem þjóðin hræddist fyrir ári.

Helztu leiðtogar stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins hafa ástæðu til að brosa út í annað, nú þegar Alþýðubandalagið vill stöðva víxlverkun launa og verðlags í einu vetfangi, um leið og nýja krónan verður tekin upp um áramótin.

Alþýðubandalagið er ekki eitt um leiftursóknarhituna. Frá Seðlabankanum heyrum við, að draga verði “úr verðbólgunni með samstilltu átaki á tiltölulega skömmum tíma, á meðan hagstæð áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar geta enn orðið að liði”.

Enginn vafi er á, að kjósendur tóku niðurtalningarstefnu fram yfir leiftursókn í kosningunum í fyrra. Líklega hafa margir óttazt, að lækningin yrði sársaukameiri en sjúkdómurinn. En síðan þá hefur mörgum snúizt hugur.

Fyrir ári töldu margir sig og þjóðina ekki hafa efni á hjöðnun verðbólgu. Menn töldu sig og aðra þurfa verðbólgu til að standa við fjárfestingar sínar og greiða niður skuldir. Nú eru þeir ekki lengur vissir um kosti verðbólgunnar.

Það væri líka sögulegt slys, ef við létum núllafækkunina ríða yfir án þess að nota tækifærið til uppskurðar á þjóðarhag. Ríkisstjórnin hefur bæði hér í blaðinu og annars staðar verið hvött til að láta nú ekki deigan síga.

Hingað til hefur ágreiningurinn í ríkisstjórninni einkum virzt vera milli niðurtalningar og algers aðgerðaleysis. Ennfremur að niðurtalningarmenn Framsóknarflokksins væru þar í hreinum minnihluta gegn aðgerðaleysissinnum.

Góðar eru því fréttirnar af því, að ráðherrar Alþýðubandalagsins hafi hreyft hugmyndum um því sem næst algera stöðvun hækkana launa og verðlags um áramótin. Þeir virðast þar með vera horfnir frá fyrri stefnu aðgerðaleysis.

Enda hefur Jóhannes Nordal seðlabankastjóri bent á, að ekki sé “ástæða til að ætla, að kjararýrnun þurfi að verða umfram það, sem þegar á sér stað við núgildandi verðbótakerfi”. Óskert verðtrygging leiðir líka til kjaraskerðingar.

Í grein í nýútkomnum Fjármálatíðindum heldur Jóhannes Nordal því fram, að verðbólga síðasta áratugar sé annars eðlis en verðbólga tveggja áratuganna þar á undan. Þá fór verðbólgan af og til niður í alþjóðlega verðbólgu, en aldrei síðan.

Jóhannes segir, að verðbólgu áratuganna 1950-1970 megi kenna sveiflum í gjaldeyristekjum og viðskiptakjörum Íslendinga. Á áratugnum 1970-1980 sé hins vegar kominn til sögunnar heimatilbúinn vítahringur 40-60% verðbólgu.

Seðlabankastjórinn segir niðurtalninguna gjaldþrota með því að benda á “þann litla og yfirleitt skammæra árangur, sem náðst hefur á undanförnum árum með því að reyna að draga úr verðbólgunni með hægfara aðgerðum á tiltölulega löngum tíma”.

Jóhannes segir það lítils virði að benda á augljósar staðreyndir af þessu tagi. Aðalatriðið sé að koma á trausti milli stjórnvalda og helztu þrýstihópa þjóðfélagsins, ef ráðizt verður í eins konar leiftursókn gegn verðbólgunni.

Vangaveltur Alþýðubandalagsins eru dæmi um, að nú er myndaður jarðvegur fyrir aðgerðir, er séu svo róttækar, að dugi. Þá skiptir ekki máli, hver kveðið hefur Lilju eða leiftursókn, heldur að hún verði kveðin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið