Dómsmálaráðuneytið lét í sumar kyrrt liggja, þótt rússneskur flóttamaður tæki sér ólöglega landvist og gæfi sig ekki fram við rétt yfirvöld. Naut í embættismannastétt fengu ekki að ráða ferðinni í það skiptið.
Dómsmálaráðherra veitti Rússanum landvist, þótt sparðatínslumenn í ráðuneytinu hefðu varað hann við slíkri mannúð. Sú niðurstaða féll alveg saman við hugmyndir þjóðarinnar um gestrisni við erlenda kerfisflóttamenn.
Í kjölfar þessa kom því óþægilega á óvart, að dómsmálaráðuneytið skuli nú vilja vísa franska flóttamanninum Gervasoni úr landi. Bréf ráðuneytisins um það efni er lítið annað en sparðatíningur embættisnauta.
Venjulegu fólki virðist hérvist Frakkans ekki vera mikið ólöglegri en Rússans á sínum tíma. Og þjóð, sem sjálf hefur ekki herþjónustu, á erfitt með að skilja áhuga ráðuneytis á viðhaldi aga í franskri herþjónustu.
Steininn tekur þó úr, þegar ráðuneytið leggur manninum til lasts franska refsidóma fyrir neitun herþjónustu og þátttöku í mótmælum. Dómsmálaráðherra ber þó skylda til að hafa hemil á embættisnautum sínum.
Frestað hefur verið framkvæmd málsins. Gervasoni var enn í landi, þegar þetta var ritað. Nú er nauðsynlegt að skoða þetta betur og komast að réttari niðurstöðu en fyrr, – Gervasoni fái að vera hér um kyrrt.
Við viljum ekki eiga í útistöðum við frönsk stjórnvöld, fremur en sovézk. En við viljum ekki taka þátt í ofsóknum gegn mönnum, sem ekki hafa framið neitt það, sem flokkast undir afbrot samkvæmt íslenzkum lögum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
