Traustið er takmarkað.

Greinar

“Valdatafl” hét framhaldsflokkur í sjónvarpinu fyrir mörgum árum. Hann fjallaði um forstjóra auðugs verktakafélags. Þeir dunduðu við það í fásinninu að sitja á svikráðum hver við annan. Enda höfðu þeir peninga eins og skít.

Flugleiðir eiga hins vegar ekki peninga. Þær töpuðu sjö milljörðum í fyrra og fjórum milljörðum tapa þær í ár. Eigur fyrirtækisins eru veðsettar í bak og fyrir. Forstjórarnir ættu því ekki að hafa tíma til að dunda við valdatafl.

Vandamál Flugleiða eru svo hrikaleg, að segja þarf upp helmingi starfsliðsins til að endar nái saman. Yfirleitt er þetta gott starfsfólk. Sama er ekki hægt að segja um toppinn, þar sem engin fækkun á sér stað.

Þar að auki er mjög erfitt að trúa, að engar annarlegar ástæður séu í bland við hreinsanir hjá Flugleiðum. Þær minna að sumu leyti á viðleitni austrænna valdhafa til að festa sig í sessi. Menn eru Sigurðarmenn eða …

Athyglisvert er, að hreinsunin á toppnum tekur ekki mið af tveimur örlagaríkum mistökum, sem ráðamenn Flugleiða hafa gert eftir sameininguna. Þessi mistök voru rangt val flugvéla og skortur á viðbragðsflýti.

Ekki voru valdar sparneytnar flugvélar á borð við Tri-Star, heldur keyptar eyðslufrekar DC-8 flugvélar, sem nú eru illseljanlegar. Ekki var keypt Boeing 747 breiðþota, heldur DC-10, sem hentar verr til vöruflutninga í bland.

Í kjölfar eldsneytishækkana er afleiðingin sú, að flogið er með tapi, þótt sætanýtingin á Norður-Atlantshafinu sé 100% dögum saman. Þar eru eyðslufrekar vélar langtum þyngri á metunum en há laun sumra flugliðanna.

Langt mál mætti skrifa um mismun flugvélategunda. En það eitt segir næga sögu, að sumar tegundir eru léttar í endursölu og verðmiklar, en aðrar þungar í sölu og verðlitlar. Á því sviði hafa Flugleiðir orðið fyrir hnekki.

Ekki er síður alvarlegt, hversu seinlega Flugleiðum gekk að bregðast við taprekstrinum. Er fyrirtækið þó svo stórt, að stjórnun ætti að vera nógu nýtízkuleg til að flytja slíkar upplýsingar með rafeindahraða.

Við nútíma stjórnun vita ráðamenn samstundis, þegar gróði breytist í tap. Aðvörunarbjöllurnar eru raunar búnar að hringja, áður en tapið byrjar að myndast. Í slíkum fyrirtækjum verður ekkert tap, því að varnir eru nógu hraðar.

Ráðamenn Flugleiða virðast hins vegar hafa setið mánuðum saman með hendur í skauti, önnum kafnir við valdatafl, meðan óveðursskýin hrönnuðust upp, til dæmis árið 1978, áður en tapið varð geigvænlegt.

Það var ekki fyrr en á sumri sjö milljarða tapársins í fyrra, að fjöldauppsagnir hófust. Og verulegur samdráttur í sætaframboði varð fyrst á því ári, sem nú er hálfnað. Ráðamenn sváfu frameftir meðan húsið brann.

Víst er algengt að hengja bakara fyrir smið. Og valdataflsmenn Flugleiða mættu gjarnan líta sjálfum sér nær, þegar þeir senda næstu uppsagnarbréf. Úr fjarlægð sýnist sem stærstu mistökin hafi verið framin á toppnum.

Svo virðist sem þetta verði brátt ekki mál hluthafa einna, ef skattgreiðendur fara að hlaupa undir bagga. En sú auma hjörð vill gjarna geta borið fullt traust til þeirra, sem um fjalla. Og á það skortir nokkuð um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið