Pétur lagði kappana.

Greinar

Ríkisstjórnin og ráðamenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja biðu mikinn hnekki í atkvæðagreiðslunni um nýja kjarasamninginn. Félagsmenn höfnuðu með yfirgnæfandi meirihluta að kaupa aukinn samningsrétt á 3% hækkun grunnlauna.

Úrslitin eru skemmtilegt dæmi um aukið lýðræði í þjóðfélaginu. Menn risu gegn ráðamönnum stéttarsamtaka sinna og neituðu að taka gilda föðurlega umhyggju þeirra. Samt eiga allir stjórnmálaflokkarnir nokkurn hlut að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Segja má, að þetta séu úrslit Péturs Péturssonar útvarpsþular. Hann stofnaði til andófsins gegn samningunum og keyrði það áfram sem hvirfilvindur, unz hann og hans menn sátu eftir sem fullkomnir sigurvegarar.

Það er merkilegt, að slíkt einstaklingsframtak skuli vera mögulegt. Það er merkilegt, að óbreyttur liðsmaður skuli geta risið upp gegn sameinaðri forustu og hrifið aðra með sér, ekki bara einfaldan meirihluta, heldur yfirgnæfandi meirihluta.

Auðvitað hafa ráðamenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja verið úti að aka. Þeir kenna um ýmsum breytingum í þjóðfélaginu á tíma samningaviðræðnanna. En auðvitað er það léleg frammistaða þeirra að átta sig ekki á slíkum breytingum, ef einhverjar eru.

Nokkuð er til í því, að órói hafi magnazt á vinnumarkaðinum í kjölfar samninga flugmanna. Þeir hleyptu illu blóði í marga og gera samninga farmanna örugglega erfiðari en ella hefði verið. Opinberir starfsmenn hafa án efa óttazt að sitja eftir.

Einnig er nokkuð til í því, að miklar kröfur opinberra fyrirtækja um hækkun á verði þjónustu sinnar hafi dregið úr áhuga starfsmanna þessara fyrirtækja á að fórna 3% grunnkaupshækkun. Auðvitað vilja menn fá örlitinn hluta af herfangi hins gráðuga ríkisvalds.

Allt þetta gátu ráðamenn bandalagsins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar séð, áður en gengið var til samninga. Enda felst ósigur þeirra fyrst og fremst í að skilja ekki umhverfi sitt eða breytingar á því.

Eftir útreið atkvæðagreiðslunnar mun það kosta ríkissjóð 1,7-1,8 milljarða króna að greiða ríkisstarfsmönnum 3% hækkun grunnkaups frá 1. apríl til næstu áramóta. Fjárlögin gera ekki ráð fyrir þessari blóðtöku.

Ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar, að úrslitin þýði í raun, að 3% hækkunin fari á alla línuna. Slík þróun jafngildir því, að verðbólgan hækki um 2% umfram það, sem ella hefði verið. En þar með erum við ekki búnir að bíta úr nálinni.

Eftir flugmannasamninga og atkvæðagreiðslu opinberra starfsmanna kann ríkisstjórnin að verða fyrir þriðja áfallinu í farmannadeilunni. Við hvert áfall eykst ókyrrðin á vinnumarkaðinum. Við hvert áfall rýrna tök ríkisstjórnarinnar á verðbólgunni.

Í blaðaviðtali í gær sagði Árni Gunnarsson alþingismaður: “Ég er hræddur um, að við séum að missa tök á launamálastefnunni. Ef stefnir í 60% verðbólgu, sé ég ekki, að það sé verjandi að halda áfram stjórnarsamstarfinu.”

Hið eina, sem stjórnin getur huggað sig við, er að óviljandi hefur henni ekki tekizt að troða auknum samningsrétti upp á opinbera starfsmenn. En líklega er það skammgóður vermir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið