Seint fyllist sálin …

Greinar

Sveitarfélögin í landinu hafa ekki magnað umsvif sín á kostnað almennings og atvinnuvega á áttunda áratugnum eins og ríkið hefur gert. En þar með er ekki sagt, að sveitarfélögin eigi einmitt núna skilið aukna sneið af þjóðarkökunni.

Umsvif sveitarfélaganna eru ekki eins óvinsæl og ríkisins. Þau útvega fólki rafmagn, vatn og jafnvel hitaveitu. Þau leggja götur, gangstéttir og garða. Þau byggja skóla og íþróttavelli. Öll er þessi þjónusta nálæg almenningi.

Auðvitað er aldrei unnt að gera nóg á þessum sviðum. Menn mega ekki láta óskhyggjuna hlaupa með sig í gönur. Sveitarfélög verða að sætta sig við framkvæmdahraða, sem mótast af tekjum þeirra.

Í atvinnulífinu og í heimilishaldi almennings kemur óskhyggja ekki til greina. Atvinnulífið er í samkeppni og getur ekki verðlagt afurðir sínar án tillits til markaðar. Og almenningur getur ekki úrskurðað sér auknar tekjur, þegar buddan er tóm.

Sömu lögmál eiga að ríkja í opinberum framkvæmdum og rekstri. Ríki og sveitarfélög eiga að láta enda ná saman án þess að heimta aukna hlutdeild í þjóðarkökunni. Þetta er þyngsta þrautin fyrir óskhyggjumenn stjórnmálanna.

Sveitarfélögin hafa staðið sig betur á þessu sviði en ríkið hefur gert. Ný samræming ætti að felast í, að ríkið minnkaði aftur hlut sinn af þjóðarkökunni í þágu atvinnuvega og almennings, meðan sveitarfélögin héldu sínum hlut.

Samband íslenzkra sveitarfélaga hefur komið fram í þessu máli sem hver annar þrýstihópur. Það hefur óskað eftir lögum um 12% hámarksútsvar í stað 11%. Samt láta sum sveitarfélög sér nægja 10 og 10,5% á þessu ári.

Reykjavíkurborg hefur ýmsa óskhyggju á bakinu. Sem dæmi má nefna ráðagerðir um hrikalega heilsugæzlustöð í Breiðholti, langtum viðameiri en aðrar slíkar, þótt miðað sé við fólksfjölda.

Uppsöfnuð óskhyggja af þessu tagi veldur því, að Reykjavík hefur frestað afgreiðslu fjárhagsáætlunar og bíður nú eftir heimild alþingis til 12% útsvars. Félagsmálaráðherra hefur tekið málið að sér, en fjármálaráðherra er tregur til, sem betur fer.

Dagblaðið hefur undanfarið gengið fram fyrir skjöldu til að benda á 12% óskhyggjuna hjá stjórnmálamönnum Reykjavíkurborgar. Þetta hefur vakið gremju þeirra, sem vildu láta málið komast sem lengst í kyrrþey.

Þeir hafa nú hefnt sín á Dagblaðinu með því að valda því milljónatjóni. Það gerðu þeir með því að fresta yfir eina helgi afgreiðslu byggingarleyfis handa Dagblaðinu, svo að það lenti í nýjum skatti, sem lagður hefur verið á smíði atvinnuhúsnæðis.

Vonandi verður sú gerð stjórnmálamönnunum til einhverrar fróunar, ef þeim tekst ekki að knýja fram 12% útsvar. Því miður er hugsanlegt, að þeim takist að ná eyrum óskhyggjumanna alþingis, þrátt fyrir tregðu fjármálaráðherra.

Alþingi er eina stofnunin í landinu, sem ekki er háð lögmáli jafnvægis í tekjum og gjöldum. Alþingi getur ákveðið, að tekjur verði auknar með nýjum eða hærri sköttum, ef það sér útgjaldaþörf, sem það ímyndar sér, að sé bráðnauðsynleg.

Allan þennan áratug hefur alþingi leitað jafnvægis tekna og gjalda í hækkuðum gjöldum og aukinni hlutdeild ríkisins í þjóðarbúinu. Þessi misráðna stefna er mikilvægasta forsenda verðbólgunnar, sem einkennt hefur áratuginn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið