Efnahagsbandalagið er í klóm landbúnaðarins á svipaðan hátt og Ísland er í klóm síns landbúnaðar. Ríkisstjórnir bandalagsins tryggja ákveðin lágmarksverð og greiða gífurlegar fjárfúlgur.
Eini umtalsverði munurinn á stefnu Efnahagsbandalagsins og Íslands í markaðsmálum landbúnaðar er sá, að þar hvílir sóunin á kröftugum herðum stóriðju, en hér vantar hins vegar breiðu bökin.
Afleiðingin á báðum stöðum er sú, að framleiðslan verður meiri en markaðurinn þolir. Afganginn verður að selja á spottprísum á alþjóðlegum markaði. Hið opinbera borgar brúsann.
Í viðræðum höfundar þessa pistils við embættismenn vestur-þýzka landbúnaðarráðuneytisins fyrir nokkrum dögum kom fram, að engar horfur eru á, að ástand þetta breytist í ríkjum bandalagsins í fyrirsjáanlegri framtíð.
Miklu fremur má búast við, að ástandið versni. Landbúnaðarþjóðirnar Grikkir, Spánverjar og Portúgalar standa á þröskuldi bandalagsins. Offramleiðsla ríkis- og bandalagstryggðra landbúnaðarafurða á því enn eftir að magnast í Vestur-Evrópu.
Á sama tíma gera Bandaríkjamenn harðar kröfur um að koma landbúnaðarafurðum sínum inn á vesturevrópskan markað. Þar vestra er líka offramleiðsla á slíkum afurðum, auk þess sem stórauka mætti framleiðsluna á fáum mánuðum, ef á þyrfti að halda.
Bandarískur landbúnaður er orðinn svo tækni- og vísindaþróaður, að einn starfsmaður í landbúnaði brauðfæðir að meðaltali 60 manns, meðan vestur-evrópskur starfsbróðir hans brauðfæðir 20 manns og sovézkur 10.
Erfitt er að meta stöðu íslenzks landbúnaðar í þessum samanburði. Af sumum vörum framleiðir hann meira en nóg fyrir þjóðina, en ekkert af öðrum vörum. Áætla má þó, að íslenzkur starfsmaður í landbúnaði brauðfæði 6- 8 manns.
Það er raunar vel af sér vikið miðað við aðstæður. Fjallaland á mörkum freðmýrabeltisins er ekki hægt að bera saman við sléttur tempraða og heittempraða beltisins. Að minnsta kosti er samanburðurinn við Sovétríkin tiltölulega hagstæður.
Hinar ytri aðstæður valda því, að framleiðni íslenzks landbúnaðar verður aldrei nema brot af framleiðni landbúnaðarins í iðnríkjunum beggja vegna Atlantshafsins. Þess vegna er landbúnaðurinn hér meiri baggi á skattgreiðendum en í öðrum löndum, yfir 10% af ríkisútgjöldum.
Öryggis okkar vegna getum við komizt af með mun minni landbúnað. Geymslur fiskvinnslustöðvanna eru fullar af matvælum, sem mundu endast þjóðinni árum saman, ef samgöngubrestur verður.
Við eigum að beina kröftum okkar, viti og peningum að verkefnum, þar sem við erum samkeppnisfærir eða höfum von um að vera samkeppnishæfir. Slík verkefni spara gjaldeyri eða afla hans.
Ekki þarf mikils á þessu sviði, því að landbúnaður okkar étur upp mikinn gjaldeyri, einkum í vélum, olíum, fóðri og áburði. Minnkun landbúnaðarframleiðslu mundi minnka slík aðföng.
Við eigum að notfæra okkur offramleiðslu landbúnaðarvara í iðnríkjunum umhverfis okkur. Þar verður um ófyrirsjáanlega framtíð allt yfirfullt af óseljanlegum landbúnaðarafurðum, sem fá má fyrir gjafvirði.
Við eigum að fella smám saman niður ríkisútgjöld á þessu sviði og beina kaupum okkar á landbúnaðarafurðum ýmist austur eða vestur yfir hafið, eftir því sem kaupin gerast bezt á eyrinni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
