Alþýðuflokkurinn sigraði

Greinar

Stórsigur Alþýðuflokksins á kostnað stjórnarflokkanna er meginniðarstaða alþingiskosninganna í gær. Þetta var mesta sveifla í stjórnmálasögu síðustu áratuga.

Stjórnarflokkarnir fengu rækilega á baukinn eftir fjögurra ára óstjórn. Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar mun nú segja af sér. Engar líkur eru á framhaldi samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir útreiðina í kosningunum.

Alþýðuflokkurinn er nú orðinn stærri en Framsóknarflokkur og jafnvígur Alþýðubandalaginu. Margir nýir menn munu sitja á þingi fyrir hönd hans. Þeim er mikill vandi á höndum að láta rætast þær vonir, sem kjósendur hafa bundið við þá.

Fylgi Alþýðuflokksins er að verulegu leyti laust fylgi, sem gæti hrunið af honum aftur í næstu kosningum. Ef illa tekst til hjá flokknum á kjörtímabilinu, gæti hann enn átt á hættu að þurrkast út af þingi, þrátt fyrir þennan sigur.

Fylgisaukning Alþýðubandalagsins er sennilega traustari til langs tíma. Samt hljóta það að vera bandalaginu mikil vonbrigði að fá sem forustuflokkur stjórnarandstöðu ekki meiri fylgisaukningu en búast má við hjá slíkum flokki við venjulegar aðstæður. Afturkippurinn frá sveitarstjórnarkosningunum fyrir mánuði hlýtur að vera bandalaginu sár.

Þjóðin hefur hafnað litlu flokkunum. Þeir fengu allir slæma útreið, þrátt fyrir ólguna í stjórnmálunum og uppgjör kjósenda við sína gömlu flokka. Kraftaverk Karvels Pálmasonar er sér á parti og verður aðeins skýrt með sérstökum vestfirzkum aðstæðum.

Athyglisvert er, hversu nærri skoðanakannanir siðdegisblaðanna fóru um úrslit kosninganna. Skekkja Dagblaðsins var enn minni en í borgarstjórnarkosningunum. Munaði aðeins rúmlega tveimur prósentustigum að meðaltali á spáðu og raunverulegu fylgi flokkanna. Mundu erlendar stofnanir á þessu sviði vera ánægðar með svo nákvæma spá.

Dagblaðið hefur orðið stjórnmálamönnum landsins að umræðuefni í nótt. Þeir orða athugasemdir sínar á misjafnan hátt. Kjarni máls þeirra er þó sá, að síðdegisblöðin og einkum Dagblaðið hafi átt þátt í að lina tök flokkanna á kjósendum sinum.

Einar Ágústsson kallar úrslitin “sigur siðdegisblaðanna”. Andri Ísaksson segir, að “runninn sé upp tími Dagblaðsins og Vilmundar Gylfasonar”. Kári Arnórsson fer nær hinu rétta, þegar hann segir, að síðdegisblöðin hafi “stuðlað að viðhorfum í landinu, sem hafi verið Alþýðuflokknum í vil”. En hin nýju viðhorf gætu við aðrar aðstæður verið allt öðrum flokkum í vil.

Alþýðuflokkurinn varð fyrstur til að átta sig á, að Dagblaðið endurspeglaði djúpstæð viðhorf í þjóðfélaginu. sem flokkarnir höfðu ekki tileinkað sér. Aðrir flokkar munu ef til vill læra af reynslunni og ná betri árangri næst. Dagblaðið er í þessu sambandi aðeins hlutlaus miðill milli lesenda sinna og stjórnmálaflokkanna.

Hvað, sem framtíðin her í skauti sinu, er staðreynd líðandi stundar sú, að kjósendur hafa efnt til stórfelldra umskipta í stjórnmálunum og sett traust sitt á Alþýðuflokkinn – að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið