Rangt var gefið

Greinar

Rækilega er komið í ljós, að óhætt var að taka mark á aðvörunum Dagblaðsins vegna frumvarpanna tveggja um skattamál, sem ríkisstjórnin kastaði framan í þjónustulipra alþingismenn aðeins tveimur vikum fyrir þingslit.

Því miður létu þingmenn stjórnast og lögfestu annað frumvarpið án þess að hafa aðstöðu til að vega og meta málið á hinum stutta tíma. Þurftu þeir þó á sömu tveimur vikum að fjalla um aragrúa annarra mála, sem þeir vissu líka lítið um.

Þar á ofan áttu þingmenn að vita, að venjulega er óhreint mjöl í poka ríkisstjórna, sem leggja fram efnismikil frumvörp á síðustu stundu og heimta afgreiðslu þeirra í miklum flýti.

Reynsla fyrri ára sýnir, að annarleg sjónarmið geta legið að baki slíkra vinnubragða, ekki sízt í skattafrumvörpum. Menn eiga að muna eftir hinum fölsuðu útreikningum, sem fylgdu með síðasta skattafrumvarpi, er blessunarlega náði ekki fram að ganga.

Í þetta sinn kom strax í ljós, að sumir útreikningarnir, sem fylgdu hinu samþykkta frumvarpi, voru rangir og sýndu skattgreiðendum hagstæðari útkomu en raun er á. Meiri tími hefði vafalaust leitt fleiri rangfærslur í ljós.

Sem betur fer, var afgreiðslu hins frumvarpsins frestað til hausts. Þar var mikil hætta á ferðum, því að flestir eru sammála um, að staðgreiðsla skatta sé æskileg. Vinsældir málsins lokuðu nefnilega augum manna fyrir skattahækkunum, sem fólust í frumvarpinu.

Þegar talað er um, að tekjuskattur komist nú hæst í 40% af launum, verða menn að muna eftir, að hann er greiddur ári eftir að teknanna er aflað. Á þessu ári rýrnar verðgildi skattgreiðslunnar úr 40% í 30% vegna verðbólgunnar.

Þegar núverandi skattstigi með ársfrestun er borinn saman við staðgreiðslu-skattstiga, verður að taka tillit til þessarar verðbólgu. Ef það væri gert til fulls í frumvarpinu um staðgreiðslu, ættu skattþrepin að vera 15%, 23% og 30% í stað 18%, 26% og 34%.

Herbragð ríkisstjórnarinnar í frumvarpinu var fólgið í ímyndaðri lækkun núverandi skattstiga úr 20%, 30% og 40% í 18%, 26% og 34%. Þetta var óneitanlega nokkuð sniðugt, en ekki nógu sniðugt, því að viðskiptafræðingur í Seðlabankanum áttaði sig strax á, að rangt var gefið í þessu spili.

Staðreyndin er sú, að við þá verðbólgu, sem ríkt hefur í áratug, jafngilda þrepin 20%, 30% og 40% í ársfrestunar-skattstiga þrepunum 15%, 23% og 34% í staðgreiðslu-skattstiga. Skattþrep frumvarpsins fólu því í sér verulega aukningu skattbyrði manna í öllum tekjuflokkum.

Góðgjörnustu menn munu ef til vill telja, að höfundar frumvarpsins hafi óvart vanmetið verðbólguna. Hinir verða þó fleiri, sem telja skattþrep frumvarpsins vera vísvitandi tilraun til að mæta aukinni “fjárþörf” hins opinbera.

Ríkiskerfið er nefnilega með þeim ósköpum hér á landi, að hvers konar óskhyggja ráðherra og þingmanna leiðir til svokallaðrar “fjárþarfar”, sem jafnan eykst mun hraðar en þjóðarbúið sjálft.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið