85 milljarða draumsýn

Greinar

Gagnrýni á fjáraustur til landbúnaðar hefur sömu áhrif á ráðamenn þjóðarinnar og þegar vatni er stökkt á gæs. Því meira sem kvartað er, þeim mun meira sóa þeir.

Samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi eiga framlög til landbúnaðarins á næsta ári að vera rúmlega 10% allra ríkisútgjaldanna, en það yrði níu þúsund milljón króna baggi á skattgreiðendum. Þetta er ?% hækkun milli ára, meiri hækkun en á nokkrum öðrum lið fjárlaganna.

Hún felur það Í sér, að nú er landbúnaðurinn orðinn að mati ráðamanna fimm sinnum mikilvægari en sjávarútvegur, sautján sinnum mikilvægari en iðnaður og níutíu og þrisvar sinnum mikilvægari en verzlun.

Það er því engin furða, þótt baráttumenn landbúnaðarins séu hressir þessa stundina. Vígreifastur er sjálfur búnaðarmálastjóri, sem hefur nú sett fram draumsýn sína um tíföldun sauðfjár Í landinu. Hann leggur til, að ræktun verði aukin í svo stórum stíl, að unnt verði að fóðra átta milljón kindur á ræktuðu landi.

Sjálfsagt er rétt hjá búnaðarmálastjóra, að fræðilega séð væri unnt að auka ræktun í þessum mikla mæli. En ýmsir aðrir liðir koma ekki fram í reikningsdæmi hans og eru ógnvekjandi í augum þeirra, sem ekki hafa sömu ofsatrú á landbúnaði og ráðamenn þjóðarinnar hafa.

Telja má, að ein kind með einum til tveimur dilkum þurfi um 280 fóðureiningar á ári. Einn hektari ræktaðs lands gefur um 2000 fóðureiningar. Það þarf því að rækta einn hektara fyrir hverjar sjö ær. Þess vegna þarf að rækta rúma milljón hektara til að draumsýn búnaðarmálastjóra nái fram að ganga.

Kostnaður við ræktun hvers hektara er 100.000 krónur. Allt dæmið kostar því 100.000 milljónir króna. Þar af mundu 60.000 milljónir króna koma sem jarðræktarstyrkir úr ríkissjóði. Það jafngildir einnar milljón króna skatti á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Ekki er öll sagan sögð með því. Ekki getur þjóðin snætt þessa aukningu. Hún kemur ekki niður nema hluta af því magni, sem þegar fellur til, þótt ríkið greiði niður þessa neyzlu. Afganginn verður að flytja út og greiða útflutningsuppbætur með honum. Auðvitað yrði að greiða slíkar bætur á alla draumsýn búnaðarmálastjóra eða um 30.000 milljónir króna.

Samtals yrði þá kostnaður skattgreiðenda af þessari draumsýn um 85.000 milljónir króna eða nokkru meiri en öll útgjöld ríkisins eiga að verða á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Það yrði þá að leggja niður alla starfsemi ríkisins aðra en styrki og uppbætur til landbúnaðarins.

Draumsýn búnaðarmálastjóra sýnir þann hugarheim, sem baráttumenn landbúnaðarins lifa í, þann hugarheim, sem stjórnar ráðamönnum þjóðarinnar eins og viljalausum strengbrúðum. Og það er einmitt þessi hugarheimur, sem hefur gert Ísland að láglaunalandi, þar sem nytsamlegir atvinnuvegir berjast í bökkum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið