400 úr ábúð á ári

Greinar

Í nýlegri skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins um framtíð landbúnaðar á Íslandi er meðal annars bent á þá stefnu að fækka býlum um helming, eða úr 4000 í 2000, á einum áratug, annars vegar með því að hætta stuðningi við útflutning landbúnaðarafurða og hins vegar með því að styrkja bændur til að hætta búrekstri.

Slík nýstefna í landbúnaði er nauðsynleg, því að þjóðin er bókstaflega að sligast undir árlegum 11600 milljón króna ríkisstyrkjum til offramleiðslu og rányrkju og undir óhóflegu verði landbúnaðarafurða. Það verður að stöðva þessa styrki til landbúnaðar og leyfa innflutning landbúnaðarafurða.

Auðvitað er matsatriði, hversu hratt eigi að vinna að þessari þjóðarnauðsyn og hversu mikið eigi að gera til að milda efnahagsleg og félagsleg vandamál, sem jafnan eru samfara röskun á atvinnuháttum. Í þeim efnum eru margar leiðir farnar. Hér verður aðeins bent á eina þeirra sem sýnishorn.

Umsvifalaust verði lagðir niður beinir styrkir til landbúnaðar og útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða. Niðurgreiðslur landbúnaðarafurða verði jafnframt lagðar niður í áföngum á fimm árum. Árlegur sparnaður ríkisins af þessu yrði á núverandi verðlagi 6300 milljónir fyrsta árið og síðan stighækkandi upp í 11600 milljónir fimmta árið.

Innflutningur landbúnaðarafurða verði gefinn frjáls í áföngum á þessu fimm ára tímabili. Innfluttar afurðir eru óniðurgreiddar ódýrari en innlendar afurðir eru niðurgreiddar. Þess vegna mundi verðlag landbúnaðarafurða til neytenda heldur fara lækkandi á tímabilinu, þrátt fyrir afnám niðurgreiðslnanna. Fimmta árið yrði árlegur sparnaður neytenda kominn upp fyrir 3000 milljónir á núverandi verðlagi.

Þessar aðgerðir mundu að sjálfsögðu valda verðhruni innlendra landbúnaðarafurða. Það verðhrun getur ríkið bætt bændum upp með því að borga hverjum þeirra beint í vasann hálfa milljón króna á ári. Sú aðstoð mundi ekki kosta ríkið nema 2000 milljónir á 4000 bændur, aðeins brot af núverandi kerfi.

Jafnframt verði stefnt að því að taka 400 jarðir úr ábúð á ári hverju, þannig að þeim fækki úr 4000 í 2000 á fimm árum. Það verði gert með því að greiða hverjum bónda fimm milljónir króna út í hönd fyrir að hætta og síðan eina milljón á ári í fimm ár, gegn því að ríkið eignist jörðina fyrir hönd þjóðarinnar. Ef jörðin þykir verðmeiri en þetta, má halda ársgreiðslum áfram, unz jarðarverði er náð. Fyrir þetta fé geta bændur keypt sér íbúðir og komið sér atvinnulega fyrir í þéttbýli kaupstaða og kauptúna.

Fyrsta árið mundu þessi jarðarkaup kosta 2000 milljónir króna og síðan meira á hverju ári í fimm ár. Jafnframt mundi fækka þeim bændum, sem fengju hálfrar milljón króna styrkinn. Heildarkostnaðurinn af öllu saman mundi smám saman aukast á fimm árum úr 3800 milljónum í 4600 milljónir króna á ári á núverandi verðlagi.

Samt mundi ríkið spara sér hvorki meira né minna en 16936 milljónir króna á þessum fimm árum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið