Þeir hafa verið kallaðir svartur blettur á þjóðhátíðarárinu, djúpt sokknir í spillinguna, leiguþý alþjóðaauðvaldsins og óþjóðhollir menn, svo að örfá dæmi úr yfirlýsingum og ályktunun séu nefnd.
Mennirnir, sem þannig er lýst eru ekki fámennur hópur landráðamanna. Þeir eru 40.000 talsins, þátttakendurnir í undirskriftasöfnun “Varins lands”. Þetta er miklu meiri fjöldi en nokkru sinni áður hefur tekið þátt í undirskriftasöfnun hér á landi, og er þá meðtalin undirskriftasöfnun hernámsandstæðinga fyrir rúmum áratug.
Ýmis samtök undir áhrifavaldi Alþýðubandalagsins hafa gert harða hríð að þessu fólki og gefið út yfirlýsingar með ruddalegu orðbragði Þessi óvönduðu meðul hafa ekki haft áhrif. Menn hafa ekki látið hræða sig frá því að standa við skoðun sína og taka þátt í undirskriftasöfnuninni.
Það er traustvekjandi, að mikill hluti þjóðarinnar skuli sjá í gegnum ódýr slagorð um, að við séum ekki frjáls þjóð, meðan erlendur her sé á íslenzkri grund, og fleira í þeim dúr, sem höfðar í senn til afbakaðrar þjóðernishyggju og einfaldra tilfinninga. Þessi slagorð hafa ekki haft umtalsverð áhrif, þótt þau hafi verið ríkur þáttur íslenzkra bókmennta á undanförnum áratugum.
Þessi 40.000 manns vita betur. Þau þekkja sitt eigið sálarlíf og hugarfar og kannast ekki við, að það hafi spillzt af völdum varnarliðsins. Þau telja varnarliðið ekki vera þátt í lífi sínu. Þau vita, að þjóðin verður fyrir miklum erlendum áhrifum af ferðalögum erlendis.innflutningi erlendra vörutegunda, kvikmynda og efnis fyrir íslenzka fjölmiðla, en ekki af dvöl varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Þetta fólk lítur á sig sem landvarnamenn. Það telur landvarnir vera eðlilegan og nauðsynlegan þátt í að halda uppi sjálfstæðu ríki hér á landi á þeim viðsjárverðu tímum, sem nú eru. Þetta fólk þráir alheimsfrið eins og aðrir, en lifir ekki í þeirri blekkingu óskhyggjunnar, að friðurinn sé þegar kominn. Þetta fólk sér raunveruleikann að baki hástemmdra yfirlýsinga á friðarfundum herveldanna.
Skoðanakannanir undanfarinna ára hafa bent til þess, að tveir af hverjum þremur Íslendingum væru landvarnamenn og aðeins einn af hverjum þremur væri hernámsandstæðingur. Velgengi undirskriftasöfnunar “Varins lands” er staðfesting á liðsstyrk landvarnamanna og mun vafalaust herða kröfur margra þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð varnarliðsins.
Velgengni “Varins lands” stuðlar einnig að því, að landvarnamenn um allt land geti setið rólegir undir rógi og ruddaskap hernámsand stæðinga. Orðljótar yfirlýsingar um meirihluta þjóðarinnar hljóta að missa marks og þynna enn raðir þeirra, sem hingað til hafa talið sig hernámsandstæðinga. Straumarnir í þjóðlífinu eru landvarnamönnum í hag um þessar mundir.
Jónas Kristjánsson
Vísir