Kröfluvirkjun er nú komin svo langt á veg, að með lagi er unnt að grilla í nokkrar staðreyndir, sem ekki sáust áður. Þar á meðal eru ýmsar tölur um kostnað og orkuverð. Fara þær nokkuð bil beggja milli kenninga Kröflusinna og Kröfluandstæðinga.
Orkustofnun reiknar með, að þrjár skástu holurnar, sem boraðar hafa verið, muni gefa samtals um tíu megawött. Hún telur sig ennfremur geta fundið fimm borholum þessa árs betri staði og náð um tíu til tuttugu megawöttum til viðbótar. Ætti það að vera nóg til að knýja fyrri vélasamstæðu orkuversins fullum krafti.
Um áramótin voru komnar 6413 milljónir í Kröflu. Reiknað er með, að í ár fari 1380 milljónir til frekari framkvæmda og 1564 milljónir í fjármagnskostnað. Er þá reiknað með miklum kostnaði í frekari boranir. Í lok þessa árs ætti Krafla því að vera komin upp í 9357 milljónir á núverandi verðlagi.
Ekki er þar með öll sagan sögð, því að þá er enn eftir að bora fyrir gufu til að knýja síðari vélasamstæðu orkuversins. Er því engan veginn fráleitt að telja, að öll muni Krafla kosta tíu milljarða króna á núverandi verðlagi.
Auðvitað er þetta miklu hærra ver:ð en menn bjuggust við að borga fyrir Kröflu. Það mun koma fram í orkukostnaði, þótt ekki eigi hann að þurfa að verða eins hár og sumir andstæðingar Kröfluvirkjunar halda fram. Dæmi Kröflu verður að reikna með svipuðum hætti og önnur slík dæmi hér á landi.
Ekki er unnt að heimta, að Krafla nýtist að fullu í upphafi. Ekki er gert ráð fyrir, að Sigalda nýtist nema 20-40% á þessu ári og hinu næsta. Samt á að setja báðar vélasamstæður Sigöldu upp strax. En árið 1979 líður að því, að Sigalda verði fullnýtt. Þá getur byggðalínan farið að flytja suður orku frá Kröflu, sem gæti þá orðið fullnýtt árið 1981 eða 1982.
Í áætlunum vatnsorkuvera hefur hingað til verið reiknað með 40 ára afskriftatíma, þegar orkuverðið er metið. Mjög ósanngjarnt virðist að gera ráð fyrir 7 eða 15 ára afskriftatíma Kröflu, svo sem sumir andstæðingar hennar hafa gert. 25 ára afskriftatími virðist hæfilegur í samanburði við vatnsorkuverin, þegar tekið er tillit til meiri úreldingar á ýmsum þáttum gufuvirkjunar.
Að þessum forsendum gefnum má búast við, að orkan frá Kröflu muni kosta þrjár krónur kílówattstundin, sem er um það bil 50% dýrara en áður var talið. Þessi orka er um og rúmlega 50% dýrari en orkan frá Soginu og Þjórsá-Tungnaá. Hún er hins vegar ódýrari en orka frá smávirkjunum, svo sem Mjólká, sem kostar 3-4 krónur. Og hún er langtum ódýrari en olían, sem hún leysir af hólmi og kostar hvorki meira né minna en 10 krónur kílówattstundin.
Allt byggist þetta náttúrlega á því, að Orkustofnun meti ástandið rétt, þegar hún mælir með því, að áfram verði haldið framkvæmdum, og telur sig geta náð hinni heitu gufu, sem reyndist svo erfið viðureignar á síðasta ári. Ef það mat reynist rétt, ættum við að geta fengið Kröflurafmagn á sómasamlegu verði, þótt ekki verði það eins ódýrt og vonað var í upphafi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið