Tölur Hagstofunnar um verðmæti útflutnings og innflutnings sýna ljóslega, hve hrapallega hefur verið lifað um efni fram á þessu ári. Á fyrstu átta mánuðum ársins voru fluttar inn vörur fyrir 29.6 milljarða króna, en út fyrir aðeins 21,1 milljarð króna.
Sá hluti innflutningsins, sem við gátum ekki borgað fyrir með útflutningi, nam því hvorki meira né minna en 8,5 milljörðum króna eða nærri 30% af innflutningnum. Þetta bil var brúað til bráðabirgða með stórkostlegum lántökum erlendis og með því að þurrka gjaldeyrisvarasjóðinn svo að segja alveg upp.
Á síðasta áratug stóðust útflutningur og innflutningur svo að segja á flest árin. Munurinn var aðeins nokkur hundruð milljónir króna í aðra hvora áttina. Á þessum árum safnaðist mikill gjaldeyrisvarasjóður. Fjármálalegt álit þjóðarinnar jókst verulega og þar með lánstraustið erlendis.
Þessi uppbygging var síðan eyðilögð á þremur árum vinstristjórnarinnar. Árið 1971 var hallinn á vöruskiptunum 4,3 milljarðar, árið 1972 2,1 milljarður og árið 1973 var hann 3,1 milljarður. Á þessu ári er hann svo kominn upp í 8,5 milljarða á aðeins átta mánuðum.
Þetta hefur verið gert til þess að halda uppi fölskum kaupmætti í landinu, til að telja fólki trú um, að vinstri stjórnir jafngiltu bættum lífskjörum. Þessi blekking stóð yfir í þrjú ár, meðan gjaldeyrisvarasjóðurinn eyddist, lántökumöguleikar erlendis voru gernýttir og lánstraust þjóðarinnar stórskaðað.
Nú er aftur komin til skjalanna fjármálalega ábyrg ríkisstjórn. Hún hefur fellt gengið til að efla útflutninginn. Hún hefur staðið fyrir milli færslum í sjávarútvegi til að tryggja mikilvægustu uppsprettu útflutningsteknanna. Og hún hefur haldið áfram frystingu kaupgreiðsluvísitölunnar, svo að þjóðin lifi ekki lengur um efni fram.
Þessar ráðstafanir ættu að duga til að koma þjóðarbúskapnum aftur á réttan kjöl. En það mun án efa taka nokkurn tíma að vinna upp sukk undanfarinna þriggja ára. Það kostar í bili 5,3% rýrnun á kaupmætti láglauna og 7,5% almenna rýrnun kaupmáttar, en ætti að geta jafnazt aftur fyrir lok næsta árs.
Auðvitað finnst þjóðinni sárt að sæta slíkri kjaraskerðingu. Það er alltaf erfitt að draga saman seglin, þegar búið er að lifa of hátt um nokkurt skeið. En þess sjást þó merki, að fólk áttar sig almennt á þeim staðreyndum, sem hér hafa verið raktar.
Þetta sést af tregðu aðildarfélaga Alþýðusambandsins á að verða við áskorun sambandsstjórnarinnar um að segja upp samningum. Flest félögin bíða enn átekta, þrátt fyrir gífurlegan pólitískan undirróður.
Ef þjóðin stenzt þessa raun og vinnufriður helzt í landinu, fara sparnaðarráðstafanir strax að segja til sín og endurreisnin kemst í fullan gang. Þá tekst okkur að afla fyrir eyðslu okkar og ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Þá öflum við okkur smám saman raunverulegra kjarabóta í stað falskra. Þá högnumst við á því að horfast í augu við raunveruleikann.
Jónas Kristjánsson
Vísir