Kurteislegar voru viðtökurnar, sem framsóknarmennirnir fengu, þegar þeir gengu á fund Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra og afhentu honum áskorun 170 þekktra flokksbræðra, sem ofbýður þróunin í viðhorfum ríkisstjórnarinnar til landvarna.
Hins vegar hafði forsætisráðherra séð um, að þeir fengju ókurteislegri viðtökur í dagblaðinu Tímanum. Þar fékk áskorunin að liggja í heila viku án birtingar. Og svo þegar hún birtist, var hún ritskoðuð svo rækilega, að einn mikilvægasti kaflinn var felldur úr.
Sjónarmiðin, sem koma fram í áskorun hinna 170 framsóknarmanna, eru samhljóða sjónarmiðum annarra lýðræðissinna, .sem berjast fyrir áframhaldandi landvörnum. Þetta eru sjónarmið mikils meirihluta þjóðarinnar.
Framsóknarmennirnir 170 telja aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu hafa verið okkur til góðs. Þeir telja ennfremur, “að samvinna Íslands við Bandaríkin um öryggismál innan vébanda bandalagsins hafi þjónað mikilvægu hlutverki á viðsjálum tímum í alþjóðamálum og stuðlað í senn að öryggi og sjálfstæði Íslands og bandalagsríkja okkar”.
Þeir “vilja fara með fyllstu gát í mótun nýrrar stefnu í íslenzkum utanríkismálum”. Þeir lýsa sig “andvíga uppsögn [varnarsamningsins] nú og telja ekki tímabært að gera grundvallarbreytingar á núverandi öryggismálasamstarfi … miðað við það ástand, er enn ríkir í alþjóðamálum”. Og þeir hvetja til samráðs við Dani og Norðmenn.
Í Tímanum var svo felld úr sú skoðun framsóknarmannanna 170, aðeðlilegt sé, að fólki gefist kostur á að lýsa skoðun sinni í þessum málum með undirskriftum. Er þar átt við hreyfinguna “Varið land”, sem um tuttugu þúsund manns hafa tekið þátt í með undirskriftum sínum. Í þeim hópi er mikill fjöldi framsóknarmanna.
Hins vegar birti Tíminn strax svar meirihluta framkvæmdastjórnar flokksins við áskoruninni. Í svarinu eru framsóknarmenn varaðir við því að skrifa undir yfirlýsingu “Varins lands”. Þetta svar birtist, án þess að neitt birtist um áskorun þá, sem var tilefni svarsins. Og þegar sjálf áskorunin birtist, er henni breytt í mikilvægum atriðum og hún þannig fölsuð.
Viðbrögð meirihluta framkvæmdastjórnarinnar og Tímans eru ákaflega sovésk. Flokksmiðjan ritskoðar miskunnarlaust til hægri og vinstri. Þetta er hættulegur leikur, því að koma kann að því, að flokksmenn sætti sig ekki lengur við slíka meðferð. Og þetta er á engan hátt samboðið lýðsræðisflokki.
Meirihluta framkvæmdastjórnar flokksins hefur þó ekki tekizt að hindra almenna framsóknarmenn í að átta sig á, að þeir eigi að skrifa undir yfirlýsingu “Varins lands”, ef þeir eru sammála henni. Það er nefnilega orðið uppvíst, þrátt fyrir ritskoðun Tímans, að 170 máttarstólpar í flokknum telja slíka undirritun eðlilega.
Framsóknarmennirnir 170 hafa unnið þjóðinni mikið gagn með framtaki sínu. Þeir hafa að vísu uppskorið dónaskap af hálfu flokksforustunnar. En þeir gera henni um leið erfitt að halda áfram á ábyrgðarleysisvegi hennar í varnarmálunum.
Jónas Kristjánsson
Vísir