Ríkisstjórnin hefur gert sig seka um mesta ábyrgðarleysi stjórnvalda á síðustu áratugum Íslandssögunnar. Eftir því sem sjávarútvegsráðherra segir ætlar hún ekki að gera neitt róttækt til að stöðva hina hrikalegu ofveiði á þorski, sem stunduð hefur verið á þessu ári.
Fyrir áramót var í fullri alvöru talað um, að annaðhvort þyrfti að leggja nokkrum hluta flotans eða hætta þorskveiðum á miðju þessu ári, ef takast ætti að láta þorskstofninn rétta við á næstu fimm árum. Hinir fróðustu menn töldu, að fara yrði fyrri leiðina til að forðast hina síðari.
Bak við þessar skoðanir stóðu upplýsingar hinnar svonefndu svörtu skýrslu. Þar kom fram, að þorskstofninn mundi ekki þola nema 230 þúsund tonna veiði á þessu ári. Sú tala gildir enn, því að tilraunir stjórnvalda til að búa til nýjar tölur hafa farið út um þúfur.
Ríkisstjórnin varð að athlægi, þegar hún lét reikna út tölur, sem bentu til þess, að afli næstu ára yrði því meiri sem meira væri veitt í ár. Hér í Dagblaðinu og víðar var strax bent á rökvilluna í þessum falstölum.
Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hafa verið veidd um 200 þúsund tonn af þeim 230 þúsund tonnum, sem svarta skýrslan telur, að veiða megi á öllu árinu. Íslendingar hafa veitt um l60 þúsund tonn og útlendingar um 40 þúsund tonn.
Búast má við, að útlendingar veiði önnur 40 þúsund tonn síðari sjö mánuði ársins og þar af veiði Bretar einir 35 þúsund tonn. Morgunblaðið telur að vísu, að afli þeirra verði ekki nema 25 þúsund tonn og ríkisstjórnin telur, að hann verði 30 þúsund tonn, meðan stjórnarandstaðan talar um allt aó 50 þúsund tonn. 35 þúsund tonn virðast því skynsamleg spá, að því er Breta varðar, og aðrar þjóðir munu veiða um 5 þúsund tonn.
Þar með er þegar ljóst, að ársveiðin fer 10 þúsund tonn yfir markið, þótt Íslendingar dragi ekki þorsk úr sjó, það sem eftir er ársins. Í nýútkominni skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn er spáð 20 þúsund tonna veiði útlendinga síðari sjö mánuói ársins. Þessi tala er greinilega um helmingi of lág og sýnir bara, hve lítið er að marka tölur Þjóóhagsstofnunarinnar. Spár hennar endurspegla aðeins í tölum hina alkunnu óskhyggju ríkisstjórnarinnar.
Þjóóhagsstofnunin spáir því, að Íslendingar muni að óbreyttu veiða einir um 250 þúsund tonn af þorski, það eru 90 þúsund tonn umfram þau l6O þúsund tonn, sem þegar hafa verið veidd. Þetta er mjög íhaldssöm spá í ljósi þess, að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að stöðva rányrkjuna og virðist ekkert ætla að gera.
Ef þessi spá er samt tekin gild og bætt við hana þeim 80 þúsund tonnum, sem útlendingar munu alls veiða á árinu, verður heildarþorskveiði ársins um 330 þúsund tonn. Það er heilum l00 þúsund tonnum meira en ráðlagt hefur verið.
Svo virðist sem ríkisstjórnin láti sér þetta í léttu rúmi liggja, enda er henni fátt verr gefið en að gæta þjóóarhags. Þessi gífurlega veiði mun valda síminnkandi afla á næstu árum og líklega leiða hrun yfir þjóðina. Öll þessi 100 þúsund umframtonn eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið